Thursday, February 16, 2006

Ég átti alveg einstaklega skemmtilegan dag í dag. Jú klukkan er orðin meira en sex svo mér er óhætt að tala í þátíð.

Dagurinn byrjaði eins og allir aðrir dagar í vikunni, ég svaf yfir mig. Jæja, ég lét það nú ekkert á mig fá heldur kom mér uppí skóla þar sem ég átti að mæta í lab. Jújú, labið gekk fínt, að því undanskildu að ég gleymdi að lesa tilraunaseðilinn áður en ég mætti svo ég hafði ekki græna glóru um hvað ég ætti að gera og viti menn, Steinar stóð í sömu sporum. Þetta olli okkur nú engum stórum vandkvæðum og við lukum tilrauninni á styttri tíma en áætlað var (kannski við ættum að þakka Svíanum sem var með okkur fyrir það). Okkur gafst tími til að borða eftir allt saman. Eftir á að hyggja þá hefði kannski verið betra að til þess hefði ekki gefist tími því ég hef lúmskan grun um að í mötuneytinu hafi ég gleymt vikugömlu vettlingunum og hattinum heimaprjónaða sem ég fékk í jólagjöf frá Ástu Jenný og Óskari Erni.

Jæja, leið mín liggur í tölvustofuna þar sem ég vippa tölvunni minni upp úr bakpokanum legg hana á borðið og keyri hana upp. Gamanið stendur þó ekki legni, stýrikerfið varla komið í gang þegar upp kemur hinn alræmdi blái skjár dauðans. Alltaf gaman að fá svoleiðis. Nema hvað ég reyni að sjálfsögðu að keyra vélina upp aftur eins og eðlilegt er, en ekkert gerist, nákvæmlega ekkert. Ég reyni aftur, en nei, ekkert gerist. Jæja, ég ákvað að ég yrði nú samt að klára skýrsluna sem við áttum að skila af okkur í dag og átti eftir að fínpússa. Ég finn lausa tölvu í stofunni og kveiki á MATLAB, en neibb, það neitar að skilja kóðann minn sem skrifaður var í annarri útgáfu. Jei! Jæja, hvað er til ráða, ég reyni áfram að bögglast með tölvuna mína og prófa IBM takkann, en nei hann virkar ekki, heldur kemur fíni blái skjárinn upp aftur. Jæja, hvað þá með "Safe Mode", neibb, það gengur ekki heldur..
Nú er klukkan farin að nálgast þrjú svo ég kem mér í tíma þar sem ég held nú samt áfram að bögglast með tölvuna sem ýmist tekur ekki við sér, eða krassar.
Klukkan orðin rúmlega fjögur og ég búin að fá nóg. Pakka, legg af stað heim, eftir smávægilegt vesen, tafir í Tunnelbananum og missa af stoppistöðinni minn, kemst ég heim, þar sem tölvan mín í þriðju tilraun ákvað að vera til friðs og ég krossa puttana fyrir því að hún verði það áfram.

Getur virkilega verið að tölvan mín sé orðin þreytt á að fara í skólann og vilji bara fá að hvíla sig á borðinu mínu þegar ég er ekki heim?

Það kaldhæðnislega er að við vorum einmitt að ræða um lögmál Murphys yfir tilrauninni í dag

0 Comments:

Post a Comment

<< Home