Monday, April 17, 2006

Jæja, þá er maður mættur aftur í Hólminn og búinn að koma sér vel fyrir á ný. Ég kom á laugardaginn og vorið var auðsjáanlega komið. Hér var tekið á móti mér með sól og blíðu. Verð að játa að ég gerði lítið annað en að koma mér hingað og sofa á laugardag. Ástæðan mun vera svefn"skortur" næturinnar á undan. Ég fékk nefnilega þá snilldarhugmynd að kíkja í ellefubíó og svo í bæinn. Mamma sótti mig svo um fimmleytið og skutlaði mér suður í Keflavík. Ég náði svo aðeins að leggja mig í vélinni. En þar hitti ég áhugaverða manneskju. Kvenmaður sem var á að giska á svipuðum aldri og ég en hafði orðið fyrir því óláni að fá MS, hún var engu að síður lífglöð og brosmild. Mjög ánægjulegt að upplifa slík kynni. Sú sem var með henni í för var komin nokkra mánuði á leið, ég myndi giska á fimm. Það sást allavega vel á henni.
Það er heilmikið af ófrísku kvenfólki í kringum mig þessa dagana. Þar er helst að nefna Ástu Jenný, konu bróður míns sem á að eiga í ágúst að mig minnir, Heiðu vinkonu, sem á rúman mánuð eftir, Heiðrúnu, sem var með mér í Réttó og er hér úti ásamt Ragga sínum (sett í maí) og Völu, konu Bjarka fyrrum nágranna, en hún á að eiga í vikunni.
Ég hitti Völu þessa á Skírdag í fyrsta skipti. Ég ákvað að það væri kominn tími til að heilsa upp á hann Bjarka minn eftir öll þessi ár og bauð mér í kaffi til þeirra á Skírdag (þau fengu að vísu að velja daginn ;)). Bjarki töfraði fram þessa dýrindis köku með smá afskiptum Völu sinnar, sem átti á smávægilegum örðuleikum með að bara fylgjast með.
Það var líka páskaeggjadagur hjá mér og foreldrunum á Skírdag, við flýttum deginum svo að við gætum deilt egginu. Ég er að ná mér niður úr sykurátinu þessa dagana og má hafa mig alla við svo ég fari ekki hlaupandi út í búð eftir sætindum. Ég skal ! Ég ætla !

Í dag er planið að rölta í búðina og kaupa hreingerningargræjur og ráðast svo í hreingerningar í eldhúsinu. Næsta föstudag ætlum við svo að hafa fjölþjóðlega matinn sem ég held ég hafi minnst á áður. Fyrir valinu hjá mér varð hrísgrjónagrautur með slátri, flatkökur með hangiáleggi og harðfiskur með smjöri. Mér finnst það vera einn réttur, en kannski má deila um það. Ég á ekki von á að slátrið verði mjög vinsælt.. þal ákvað ég að flatkökurnar fengju að fylgja með. Af gefnu tilefni og eftir góðum ábendingum ákvað ég að sleppa kjammanum og hákarlinum. Brennivínið fékk þó að fylgja með eins og vera ber.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Dagurinn er 15. ágúst

;-)

17 April, 2006 08:26  
Blogger Skatan said...

Takk fyrir staðfestinguna :)

17 April, 2006 09:21  

Post a Comment

<< Home