Thursday, April 06, 2006

Jæja, þá er ég lent á klakanum og hér er bara helvíti kalt, ég get ekki sagt annað. Ég tók loforð af veðurguðunum í Svíþjóð um að vorið yrði komið þegar ég sný aftur laugardaginn fyrir páska. Það er eins gott að þeir standi við það, því vetrarjakkinn er ekki á leiðinni út aftur. Ég hafði leyft mér draumóra um að koma einhverju af bókunum mínum heim í þessari ferð en það tókst eitthvað hálfilla. Skautarnir og hin og þessi tæki, tól og snúrur fengu forganginn að þessu sinni. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að mér líði betur með að senda námsbækurnar heim í pósti en græjurnar.
Stefnt er að því að hafa fjölþjóðlegan mat í eldhúsinu á ganginum mínum þegar ég sný aftur þar. Fjölbreytileikinn veltur hins vegar á hversu vel okkur tekst að sannfæra piltana á ganginum um að þeir elda eitthvað einkennandi frá sínum heimaslóðum fyrir okkur. Pottþétt verður þó mexíkóskur, kínverkur og afrískur matur. Já og að sjálfsögðu íslenskur. Hugmyndin er að taka með eitthvað meira spes í stað þess að mæta með veislumatinn sjálfan, lambalærið. Þar dettur mér helst í hug grjónagrautur og slátur ásamt harðfiski og flatkökum með hangikjöti. Ég fór reyndar að gæla við þá hugmynd að kippa með einum kjamma til að sjóða, það væri gaman að sjá viðbrögðin við því ;). Mamma var að mana mig í að mæta með hákarl líka, í tilefni þess að brennivíninu íslenska hefur verið mjög vel tekið. Pabbi á víst einn vel úldinn bita í ísskápnum..

Hversu langt á maður að þora að ganga?

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

láttu all flakka með, þú verður að halda uppi heiðri Íslands þarna úti og láta heiminn vita að við látum bjóða okkur hvað sem er ;)

08 April, 2006 13:44  
Anonymous Anonymous said...

ef þér þykir vænt um þetta fólk þá myndi ég bara sleppa því að gefa þeim þorramat

kveðja, Andri

09 April, 2006 22:51  
Blogger Skatan said...

Point taken.. Andri

Kannski er það bara ég, en ég hef aldrei litið á slátur og svið sem þorramat. Ég tek yfirleitt alltaf með mér lifrarpylsukepp út..

10 April, 2006 11:47  

Post a Comment

<< Home