Saturday, June 17, 2006

Það er alltaf jafn skemmtilegt þegar tölvan tekur upp á því að bila. Mín hrundi í gær og fer ekki í gang. Hún hagar sér eins og þegar móðurborðið fór fyrr í vetur. Ekki var það á besta tíma þá og heldur betur ekki núna. Ég fer niður í Háskóla á mánudaginn þar sem ég ætlaði mér að byrja í undirbúningi fyrir verkefnið. Dagurinn fer þó líklega að mestu leiti í útréttingar og reddingar, óvíst hversu mikið mér verður úr verki í Háskólanum þann daginn, enda þarf ég tölvuna mína við þessa blessaða verkefnavinnu. Ég hef þó fulla trú á því að Nýherji reynist mér betur en viðgerðarþjónusta IBM í Svíþjóð og taki ekki rúma viku í að redda tölvunni minni, þaðan af síður að þeir taki uppá að panta varahluti frá Ítalíu..

Ég er í óða önn að flytja dót inn í nýju íbúðina mína. Eins og er er fremur fátæklegt þar inni. Einn borðstofuborð ásamt 4 stólum, dýna fyrir mig og bæli fyrir Gizmo, en hann eyddi fyrstu nóttinni með mér þar. Hann var þó ekki alveg sáttur við þetta nýja umhverfi og stakk sér undir sængina mína og hrjúfraði sig til fóta þegar blaðið kom í morgun.

Best að koma sér aftur að verki því nóg er eftir !


Og vel á minnst: Til hamingju með daginn Íslendingar nær og fjær !

0 Comments:

Post a Comment

<< Home