Thursday, March 02, 2006

- Allt er kál í kuldanum - gæti verið það sem kanínan, sem ég mætti á mánudagskvöldið á leiðinni heim úr skólanum, var að hugsa, en þar sat hún í makindum sínum við grein sem svignað hafði niður og nagaði börkinn. Líklega hefur henni líkað það vel þar sem hún sat þar aftur daginn eftir, ja, nema það hafi verið önnur alveg eins. En það er svo sem ekki um mikið annað að velja þessa dagana, enda snjór yfir öllu og hitinn að miklu leyti undir frostmarki.
Ég afrekaði að tapa lyklunum mínum síðustu helgi og kemur það ekki mjög á óvart miðað við skakkaföllin sem hafa orðið undanfarnar tvær vikur. Góðu fréttirnar eru þær að ég fékk nýjan sílinder í hurðina mína og nýja lykla, sem þýðir að læsingin stendur ekki lengur á sér. Ég hafði mig líka loksins í að láta vita af því sem var ekki eins og það átti að vera, svona úr því húsvörðurinn var hvort eð er kominn á hnén við hurðina mína. Þetta lyklaævintýri var nú ekki alveg ókeypis en ég skrimti enn og er ekki fallin undir hungurmörk. Hlakka til að koma heim og sjá vatnið renna óhindað um niðurfallið og geta fest gluggann svo hann fjúki ekki upp.

Tölvuna mína fæ ég aftur á morgun, jibbí, og það akkurat tímanlega til að stela tímanum sem +a að fara í próflestur.
Ég á von á heldur strembnu prófatímabili, enda eru tvö verkefni eftir (þökk sé tölvunni minni fyrir að beila) og fyrsta prófið á miðvikudag. Seinna prófið verður svo á þriðjudag eftir viku. Þar verður enginn lúxus í þetta skiptið, ekkert upplestrarfrí og skóli strax daginn eftir seinna prófið.

Með öðrum orðum, tími til að bretta upp ermarnar og dýfa höndunum í mykjuna!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home