Wednesday, June 21, 2006

Gleði, gleði !

Tölvan mín er biluð, aftur, hún hrundi á föstudag, fór í viðgerð á mánudagsmorgun og eftir því sem ég best er ennþá óljóst hvað er að. Vonandi verður allt eins og vera skal ekki seinna en á föstudag. Þá get ég vonandi gert eitthvað sniðugt hér, eins og birta myndir frá Úkraínu og af íbúðinni minni :)

kveð í bili

Saturday, June 17, 2006

Það er alltaf jafn skemmtilegt þegar tölvan tekur upp á því að bila. Mín hrundi í gær og fer ekki í gang. Hún hagar sér eins og þegar móðurborðið fór fyrr í vetur. Ekki var það á besta tíma þá og heldur betur ekki núna. Ég fer niður í Háskóla á mánudaginn þar sem ég ætlaði mér að byrja í undirbúningi fyrir verkefnið. Dagurinn fer þó líklega að mestu leiti í útréttingar og reddingar, óvíst hversu mikið mér verður úr verki í Háskólanum þann daginn, enda þarf ég tölvuna mína við þessa blessaða verkefnavinnu. Ég hef þó fulla trú á því að Nýherji reynist mér betur en viðgerðarþjónusta IBM í Svíþjóð og taki ekki rúma viku í að redda tölvunni minni, þaðan af síður að þeir taki uppá að panta varahluti frá Ítalíu..

Ég er í óða önn að flytja dót inn í nýju íbúðina mína. Eins og er er fremur fátæklegt þar inni. Einn borðstofuborð ásamt 4 stólum, dýna fyrir mig og bæli fyrir Gizmo, en hann eyddi fyrstu nóttinni með mér þar. Hann var þó ekki alveg sáttur við þetta nýja umhverfi og stakk sér undir sængina mína og hrjúfraði sig til fóta þegar blaðið kom í morgun.

Best að koma sér aftur að verki því nóg er eftir !


Og vel á minnst: Til hamingju með daginn Íslendingar nær og fjær !

Friday, June 16, 2006

Þá er runninn upp dagurinn sem ég flyt formlega til Íslands, ég hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessum flutningum, þetta verður efalaust frekar skrítið. Single, nýr bæjarhluti, mín eigin íbúð og stórt verkefni framundan, svo ekki sé talað um væntanlegt internetleysi í nokkra daga (eins gott að maður er búinn að hita upp í Úkraínu ;)).

Dagurinn í dag er svo sannarlega ekki tíðindalaus, auk flutninganna þekki ég hvorki meira en minna en þrjá pilta sem eiga afmæli í dag. Minn gamli vinur Eyjólfur, Friðgeir, vinur Eyfa og gamall skólabróðir minn og Francesco, klifurfélagi og tangóáhugamaður. Ekki slakir piltar þar á ferð.

Stefnan er að reyna að draga Skara bróður að klifra á sunnudag og hlakka ég mikið til að sjá hvað hann getur, ef hann getur þá eitthvað :D (nei nú er kominn í mig lítill púki).

Ég mun reyna að henda inn nokkrum myndum frá Úkraínuferðinni fljótlega, vonandi dreg ég það ekki of lengi því þá er ansi hætt við að ég gleymi því alveg.. Stundum hef ég algert gullfiskaminni...

Hejdå Sverige!
Halló Ísland!

Thursday, June 15, 2006

Jæja, þá er ég komin aftur heim frá Úkraínu og á morgun flyt ég til Íslands í rúmlega hálft ár. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef meiri skilning á því núna hvers vegna Magga bloggar svona sjaldan. Það er ekki við öðru að búast þegar tengingin nær heilum 19.2k.
Ég verð að dreifa sögum frá Úkraínuferðinni á nokkrar færslur, mig langar að setja inn nokkrar myndir með og bloggið verður alltof langt ef ég hendi öllu inn í einu.

Það verður að viðurkennast að höfrungasýningin stendur hæst uppúr því sem við tókum okkur fyrir hendur. Hún var í borginni Jalta á Krímskaganum, en sú borg kom einmitt í fréttunum síðustu helgi þar sem nokkrar konum frá Vestmannaeyjum hlupu kvennahlaupið þar. Alveg magnað, Íslendingar eru alls staðar! Við rákumst þó ekki á Íslendingahópinn á meðan á veru okkar í Jalta stóð.
Höfrungarnir sýndu okkur hinar og þessar kúnstir og eftir sýninguna bauðst okkur að fá að taka mynd af okkur með höfrungunum og synda með þeim gegn vægu verði. Myndatakan kostaði 25 GRN á meðan sundið kostaði 50 GRN, þetta samsvarar um 375 og 750 ISK, og þykir mér það mjög vel sloppið.

Ég var mjög fegin að vera í klifrinu þarna, maður þurfti að halda fast.

Þeir myndast nú töluvert betur en ég ;)