Monday, July 31, 2006

Jæja, það er fyrir löngu kominn tími á blogg. Eins og ég hef minnst á áður tók ég tvo Finna með mér heim frá Stokkhólmi. Þeir stoppuðu í tæpar tvær vikur, þar af vorum við viku á ferð um landið. Sú ferð var nokkuð undarleg, þar sem við Steinar stóðum í þeirri meiningu að við ætluðum fjögur saman í ferð en ekki við tvö með tvo puttaferðalanga. En svona er nú menningin misjöfn milli landa. Það þarf kannski ekki að minnast á það að ferðin reyndi örlítið á vinabönd okkar Steinars þar sem við erum bæði skoðanasterk á það hvernig við viljum hafa hlutina og sjaldan sem við erum alveg sammála. Við komumst þó ósködduð frá þessu öllu saman.

Í heildina talið með ferðinni á Gullfoss-Geysi keyrðum við rúma 3000km og fékk ég þökk sé foreldrum mínum að sitja undir stýri allan tímann. Helstu stopp voru Skógar, Dyrhólaey, Skaftafell, Norðfjörður, Hengifoss, Kárahnjúkar, Dettifoss, Húsavík, Mývatn, Akureyri, Goðafoss, Látrabjarg, Dynjandi, Stykkishólmur, Snæfellsjökull og Arnarstapi. Við stoppuðum því bæði á syðsta og vestasta odda landsins.

Ekki er úr vegi að láta nokkrar myndir úr ferðinni fylgja með.

Við fengum feiknafínt veður við Dyrhólaey, þó vindurinn hafi aðeins blásið:

Steinar féll mjög vel inn í umhverfið á þessum syðsta odda landsins:
Finnunum fannst heillandi að tjalda á miðjum Skeiðarársandi:

Á meðan gistum við Steinar í Skaftafelli þar sem hann smakkaði aðeins á ísklaka úr jöklinum:

Það fer ekki mikið fyrir manni í samanburði við Hengifoss:

Þrátt fyrir að það hafi heillað að stinga sér til sunds við Goðafoss þá hefði verið helvíti blautt í bílnum á eftir:

Steinar hafði gaman að því að ögra kríunum :

Á meðan Tapani var meira fyrir að kanna rör sem lá undir veginn:

Saturday, July 15, 2006

Það eru víst fleiri en fyrsta vígið sem eru fallin, þar sem undirrituð valdi bjór fram yfir cider í gærkvöldi..

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað sé langt í rauðvínið...

Thursday, July 13, 2006

Fyrsta vígið er fallið. Þeir sem hafa umgengist mig eitthvað undanfarið hafa líklega orðið varir við að ég er farin að drekka te. Kókið ætla ég nú samt ekki í, né kaffið (enn sem komið er). Hins vegar hef ég ekki orðið vör við þessi leiðinda fráhvarfseinkenni, ekki nema þessa venjulegu syfju..

Saturday, July 08, 2006

Aðalatburði ferðarinnar lokið, Depeche Mode tónleikarnir í gærkvöldi. Þeir voru vægast sagt frábærir, þó að sætin hefðu að sjálfsögðu mátt vera betri. Þau voru bara orðin uppseld þegar ég vissi loksins af tónleikunum. Fyrst með fréttirnar, eins og alltar ;)

Tónleikagestir voru á ýmsum aldri, þónokkrir ennþá undir belti. Ég held ég geti þó sagt með vissu að við Hulda höfum séð þann yngsta 'sjálfstæða'. Sá hélt varla haus greyið, við vorum mikið að spá í hvað foreldrarnir voru eiginlega að hugsa. Þó svo að barnið hafi verið með vörn fyrir eyrum þá fannst okkur þetta einum of.

Um 26þús manns voru á tónleikunum sem fóru fram undir oppnum himni. Sólin var langt í frá sest þegar sænska upphitunarhljómsveitin fór á svið, hún settist á meðan seinni upphitunarsveitin (sem ég held að hafi verið Muse) spilaði. Við fengum að sjálfsögðu að bíða svoldið eftir snillingunum sjálfum og uppklappið tók líka vel á lófana..

Lokaniðurstaðan er: Algjörlega þess virði !

Það hefur aðeins kólnað svo ég er ekki eins mikið að deyja úr hita eins og síðustu daga.

Kveðjur úr hólminum

Saturday, July 01, 2006

Liðin vika: Sumarskóli um efni til nota í vetnissamfélagi framtíðarinnar, ferðir á pöbbann með hressu fólki úr skólanum, þar sem m.a. bjórdrykkja, spjall og fótboltaáhorf átti sér stað. Já þú last þetta rétt, bæði bjór og fótbolti, ég veit ekki alveg hvað er að gerast með mig.

Netið er ekki enn komið í lag heima.. en það hefur svo sem ekki komið mikið að sök síðastliðna viku þar sem ég hef lítið verið við heima.

Gizmo og Bandito fengu að fara út einir í fyrsta skipti á nýja staðnum á fimmtudaginn og fyrrnefndur hefur ekki sést síðan snemma í gærkvöldi. Nágrannakettirnir voru ekki yfir sig ánægðir með þessa nýju nágranna sína og tóku ekkert sérlega vel á móti þeim. Bandito kom hlaupandi inn hvað eftir annað snemma í morgun undan þeim. Gizmo hefur verið eitthvað svo lítill í sér undanfarið að ég er svoldið hrædd um að hann hafi hlaupið eitthvað í burtu greyið.
Lítið annað að gera en að vona að hann rati aftur heim, annaðhvort til mín eða foreldra minna þó leiðin á fæti frá Vesturbænum í Árbæinn sé frekar löng fyrir lítinn kött.


Óttaleg kattarfærsla er þetta, en jæja, svona tóku þeir á móti mér einn daginn þegar ég kom heim:
Svo er hérna ein mynd af útsýninu út um stofugluggann hjá mér:
Maður verður eiginlega að reyna að skrönglast upp Keili úr því hann situr þarna nokkurn veginn fyrir miðju..

Ferðinni er heitið svo til Stokkhólms á miðvikudaginn þar sem Depeche Mode verða með tónleika í Stadion á föstudag =D