Tuesday, May 30, 2006

Dagurinn fór í hinar og þessar reddingar. Skila bók í skólanum og fá afrit af prófinu mínu (já, ég þarf að eiga eitt eða tvö orð við kennarann) . Fara á skattstofuna og redda vottorði um að ég sé tekjulaus innan Svíþjóðar og skrá mig úr landi. Klifra. sækja dót á einn stað og skila af mér dóti á annan. Þvo. Næsta skref er að pakka (eins gott að ég gleymi ekki vegabréfinu, það væri alveg eftir mér...)

Ég kíkti á Huldu í Karolinska í dag, bæði til að spjalla og kveðja hana í bili. Þar fundum við gamalt Metro sem í var grein sem vakti áhuga okkar. Greinin fjallaði um breytt hugarfar ungs fólks til kynlífs, þ.e. að meira teljist sjálfsagður hlutur í dag en þegar foreldrar okkar voru ungir. Fleiri séu opnir gagnvart hópkynlífi, kynlífi með sama kyni, opnum samböndum og að eiga bólfélaga. Þetta er ekkert til að rengja en var ekki það sem okkur þótti áhugaverðast.
Það sem mestan áhuga vakti hjá okkur voru tölur úr könnun sem gerð var á sjöunda áratugnum í Svíþjóð. Þar kom fram að konur studnuðu að meðaltali kynlíf með 1,4 manneskjum á lífsleiðinni meðan sama karlmenn áttu að meðaltali 4,7.
Okkur fannst þetta ekki alveg geta passað, það þarf tvo til (amk) ef stunda á kynlíf með öðrum en sjálfum sér. Eftir nokkrar vangaveltur komumst við að þeirri niðurstöðu að þrennt gæti komið til greina:
1. Það eru mun fleiri konur en karlar í samfélaginu.
2. Karlar stundi ekki bara kynlíf með konum, heldur körlum líka.
3. Konur draga úr tölu rekkjunauta á meðan karlar ýkja hana.

Hvað af þessu er líklegast ?
Eru til fleiri skýringar ?

Tuesday, May 23, 2006

Þennan vegg afrekaði ég loksins almennilega í gær. Þegar ég segi almennilega meina ég að ég hafi komist upp án þess að renna til eða minna takið á neinum stað. Ég er að sjálfsögðu mjög sátt enda hrundi ég niður og varð að gefast upp í 3 m hæð í minni fyrstu glímu við hann. Mér tókst það í 4ðu glímu (komst upp í 3ju, myndin er tekin þá, en rann til örlítið ofar en á myndinni og þurfti því að reyna aftur)

Að öðru þá var ég að ljúka síðustu skýrslu vetrarins og eftir stendur þá eitt próf , þ.e. að undanskyldu þessu sem ég tók meðvitaða ákvörðun um að skrópa í þar sem mér líkaði ekki kennarinn, hver veit nema ég taki það upp í haust, annars skortir alveg þrýstinginn á mig núna þar sem þær einingar sem þarf til að ljúka mínu núverandi námi eru þegar í höfn. Stefnan er þó sett á 200 pkta námið og er ég því væntanleg til Sverige aftur í janúar :).

Saturday, May 20, 2006

Ég bara verð að lýsa yfir ánægju mína að Finnar skyldu fá þennan líka stuðning í keppninni. Þetta kom skemmtilega á óvart eftir að í ljós kom að Evrópubúar voru engan veginn tilbúnir fyrir frekjudolluna hana Silvíu Nótt, ég held ég hafi aldrei áður heyrt púað á lag (og þann sem tilkynnti stigin) í Eurovision, þó fannst mér votta fyrir þessu sama hjá Litháum sem komust nú reyndar vel upp listann í kvöld.
Það er ljóst að menn eru almennt orðnir þreyttir á Eurovision uppskriftinni og vilja sjá meiri fjölbreytni. Ekki leiðinlegt það !

Nú leggst ég sátt til svefn því morgundagurinn bíður óþreyjufullur með öllu því sem honum fylgir.

Tuesday, May 16, 2006

Það er ekki laust við að maður sé orðinn pínulítið steiktur í próflestrinum. Fyrsta prófið mitt er í fyrramálið og af slæmum ávana er ég enn að lesa og ekki á leiðinni að hætta alveg strax.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að eyðileggja myndavélina mína um helgina þegar ég fékk sand á utanverða linsuna sem ég náði ekki að hreinsa burt svo að linsan náði ekki að dragast alveg út. Ég bý hins vegar það vel að þekkja fólk sem ekki deyr ráðalaust og Francesco gerðist svo góður að redda málunum fyrir mig.

Maður finnur sér alltaf eitthvað sniðugt að gera í prófum, hér er gott dæmi:
Arturo stendur hér gottandi við hreingerningarplanið næstu tvo mánuði þar sem hann veðjaði hreingerningarvikunni við Helen, og hún tapaði. Veðjað var um hvort Gallo, frændi Arturo, næði ferjunni til Eistlands eða ekki. Eins dauði er annars brauð, Gallo náði ekki ferjunni...
Á plagginu er strikað yfir nafn Arturos, Helen skrifuð í staðinn og skýringin "pga. lost bet" skrifuð við. Við hlógum mikið í dag :)

Ætli sé ekki best að ég komi mér aftur í lesturinn svo ég nái í gengum efnið og nái að hvíla augun í ca. klukkutíma fyrir prófið :)

/ Ein með Prodigy í eyrunum til að hjálpa við að halda tempóinu
Ástæða verkjanna í handleggjum og vinstra baki:Þessi síðasta ferð ver drulluerfið og endaði í uppgjöf á miðri leið...

Wednesday, May 10, 2006

Hvaða rugl er það eiginlega að framleiða töflur sem molna í öreindir áður en maður nær að stinga þeim upp í sig ?!?
Hvernig á maður eiginlega að gleypa duft ?!?


/ Ein pínu pirruð

Tuesday, May 09, 2006

Ég er komin með nýja söfnunaráráttu. Ég er að safna marblettum. Nú þar sem bandývertíðinni virðist vera lokið þótti mér nauðsynlegt að finna mér eitthvað í staðinn svo úthaldið grotni ekki alveg niður. Það var fótboltinn sem varð fyrir valinu og bý ég svo vel að hafa Helen á ganginum og hún alltaf til. Við ætlum svo að reyna að smala saman liði svo við getum tekið leik. Það verður fróðlegt að sjá hvort það gengur. Við þurfum efalaust aðeins að pína strákana á ganginum og spurning hvort gengur að draga Xiaofang út, hún er eiginlega eina stelpustelpan á ganginum. Allavega af þessum hóp sem þekkist ágætlega.
Aðaluppspretta marblettanna minna er að sjálfsögðu klifrið. Enda á ég það til að missa takið þegar strákarnir mana mig upp veggi sem eru kannski ekki alveg þeir auðveldustu. Svo neita þeir að sjálfsöðgu að hleypa mér niður fyrr en ég er búin að missa takið að minnsta kosti þrisvar. Ég fékk að dangla í lausu lofti síðast þangað til ég gaf mig og skreið upp restina af veggnum. Ekki að ég sé að kvarta, hver einasti marblettur er alveg þess virði. Fótboltinn skilar svo alveg þeim marblettum sem bandýið gerði áður, ekki alveg á sömu stöðum samt.

Já, það er gott að vera í Svíþjóð núna !


Hérna er svo Helen með matinn sem hún bauð okkur upp á síðasta föstudag.
Ekta eþíópískur matur. Það kom mér virkilega á óvart hvað hann var góður. Brauðið kom með beinu flugi frá Afríku, enda víst ekki hægt að baka eins brauð hér þar sem hráefnin eru eitthvað öðruvísi. Hins vegar er hægt að fá svipuð brauð hérna og skildist mér á Jiju að þau sem fengjust hér væru ekki eins beisk á bragðið.
Ég var að fletta í gegnum myndirnar mínar frá Finnlandi, og þessi stendur uppúr af okkur Steinari. Mjög skemmilega súrt moment...

Allar myndirnar mínar frá Finnlandsferðinni eru komnar til Steinar og hann birtir eflaust gott úrval undir Valborgarmöppunni (sem ég skil ekki alveg af hverju heitir ekki Vappu) á næstu dögum. Ég linkaði á hana hérna einhvers staðar að neðan..

Monday, May 08, 2006

Vel á minst, hér er myndaalbúmið hans Steinars frá Vappu.
Það er bara of gott veður til að vera inni þessa dagana, þal eru myndirnar frá Finnlandi ennþá á myndavélinni en bætast vonandi fljótlega í Finnlandsmyndasafnið hjá Steinari á næstu dögum. Fyrir þá sem hafa ekki verið að fylgjast með þá hefur verið sól og blíða í Stokkhólmi undanfarna daga og á að vera svoleiðis fram að helgi. Sólbaðsveður, 20°C.

Ég ætla að halda áfram að reyna að draga Huldu úr vinnunni svo ég geti slæpst með henni, það er svo stutt þangað til ég þarf að kveðja Svíþjóð í bili..

Tuesday, May 02, 2006

Jæja, þá er maður mættur í Hólminn aftur. Hress eftir 5 daga partýstand. Niðurstaða helgarinnar er sú að Finnar kunna svo sannarlega að skemmta sér, og já, þeir eru ansi drykkfelldir líka. Ég verð samt að játa að við Steinar létum stóðum okkur hreint ekki illa í að halda í við rest.

Fjörinu er lokið í bili og alvaran tekur við. Tvær vikur í næstu próf og 5 skýrslur í vinnslu. Segi eins og sannur Íslendingur: Þetta reddast !