Thursday, February 23, 2006

Ég fer að íhuga að breyta titli þessa bloggs í 'vandamál í tölvuheimi'. Já, rétt til getið, tölvan mín er ennþá í verkfalli. Ég fékk nýjan HDD í dag en það var greinilega ekki málið. Ég neyðist því líklega til að senda tölvuna mína í viðgerð eftir allt saman, en ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, því nú kann ég amk að skipta um harðan disk í lappanum mínum.

Jæja, endilega haldið áfram að fylgjast með tölvuhasarnum ógurlega, en ég vona samt að hann taki enda sem fyrst. Það er hálfgert vesen í mínu námi að vera ekki með tölvu við hendina þegar manni hentar. Svo er maður líka orðinn svo góðu vanur.

Wednesday, February 22, 2006

Jæja, tölvan mín ákvað að vilja ekkert gera fyrir mig lengur svo ég hringdi í þá hjá IBM og sagði þeim að ég héldi að harði diskurinn væri eitthvað bilaður. Þeir keyptu að sjálfsögðu við því og ég fæ nýjan á næstu dögum. Ég átti að fá hann afhentan í gær en var því miður ekki heima til að taka á móti honum, þurfti víst að vera í skólanum, aldrei þessu vant. Ég fæ diskinn vonandi í hendurnar á morgun og þá er bara eftir að koma honum í. Það var annaðhvort 'do it yourself' eða láta senda tölvuna í viðgerð sem tæki amk viku. Ég stökk á fyrri kostinn þar sem ég gat ekki hugsað mér að missa afþreyinguna í heila viku.
Eins og þið vitið þá hef ég í gegnum tíðina verið nokkuð lúnkin við að láta karlpeningin sjá um tölvumálin hjá mér, svo það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr þessu...

Kveð í bili, farin á Onsdags eftir 12 tíma skóladag..

Sunday, February 19, 2006

Ég talaði heldur betur af mér síðast og bankaði augljóslega ekki nógu fast í borðið. Tölvan mín er ennþá í uppreisn og ég held svei mér þá að ég neyðist til að fara með hana til læknis. Ég er búin að gera bókstaflega allt sem mér dettur í hug, þmt strauja hana en hún er ennþá með vesen. Kannski er það bara ég en bendir það ekki til þess að hardware-ið sé eitthvað að klikka?

Stefnan er sett á að koma henni í góðar hendur á mánudaginn, krossa puttana og vona að ábyrgðin nái yfir hvað sem það nú er sem er að bögga hana. Vona að ég verði ekki tölvulaus lengi því maður er hálfaumingjalegur án hennar. Hún er nokkurs konar þungamiðja bæði afþreyingar og samskipta í mínu einfalda stúdentslífi.

Heyri ég bergmál úr fjarska: 'Get a life!'?

-Simple people with simple needs -

Friday, February 17, 2006

Óheppnin er hætt að elta mig í bili (7-9-13). Tölvan verið til friðs frá því í gærkvöldi og hanskarnir og hatturinn komnir í leitirnar, þeir leyndust eins og mig grunaði í matsalnum. Og mér til mikillar ánægju hafði óprúttnum ekki dottið til hugar að taka þá með sér.

Vil ég þakka óheilladísunum fyrir að hætta að elta mig í bili, en hvert ætli þær hafi farið?

Thursday, February 16, 2006

Ég átti alveg einstaklega skemmtilegan dag í dag. Jú klukkan er orðin meira en sex svo mér er óhætt að tala í þátíð.

Dagurinn byrjaði eins og allir aðrir dagar í vikunni, ég svaf yfir mig. Jæja, ég lét það nú ekkert á mig fá heldur kom mér uppí skóla þar sem ég átti að mæta í lab. Jújú, labið gekk fínt, að því undanskildu að ég gleymdi að lesa tilraunaseðilinn áður en ég mætti svo ég hafði ekki græna glóru um hvað ég ætti að gera og viti menn, Steinar stóð í sömu sporum. Þetta olli okkur nú engum stórum vandkvæðum og við lukum tilrauninni á styttri tíma en áætlað var (kannski við ættum að þakka Svíanum sem var með okkur fyrir það). Okkur gafst tími til að borða eftir allt saman. Eftir á að hyggja þá hefði kannski verið betra að til þess hefði ekki gefist tími því ég hef lúmskan grun um að í mötuneytinu hafi ég gleymt vikugömlu vettlingunum og hattinum heimaprjónaða sem ég fékk í jólagjöf frá Ástu Jenný og Óskari Erni.

Jæja, leið mín liggur í tölvustofuna þar sem ég vippa tölvunni minni upp úr bakpokanum legg hana á borðið og keyri hana upp. Gamanið stendur þó ekki legni, stýrikerfið varla komið í gang þegar upp kemur hinn alræmdi blái skjár dauðans. Alltaf gaman að fá svoleiðis. Nema hvað ég reyni að sjálfsögðu að keyra vélina upp aftur eins og eðlilegt er, en ekkert gerist, nákvæmlega ekkert. Ég reyni aftur, en nei, ekkert gerist. Jæja, ég ákvað að ég yrði nú samt að klára skýrsluna sem við áttum að skila af okkur í dag og átti eftir að fínpússa. Ég finn lausa tölvu í stofunni og kveiki á MATLAB, en neibb, það neitar að skilja kóðann minn sem skrifaður var í annarri útgáfu. Jei! Jæja, hvað er til ráða, ég reyni áfram að bögglast með tölvuna mína og prófa IBM takkann, en nei hann virkar ekki, heldur kemur fíni blái skjárinn upp aftur. Jæja, hvað þá með "Safe Mode", neibb, það gengur ekki heldur..
Nú er klukkan farin að nálgast þrjú svo ég kem mér í tíma þar sem ég held nú samt áfram að bögglast með tölvuna sem ýmist tekur ekki við sér, eða krassar.
Klukkan orðin rúmlega fjögur og ég búin að fá nóg. Pakka, legg af stað heim, eftir smávægilegt vesen, tafir í Tunnelbananum og missa af stoppistöðinni minn, kemst ég heim, þar sem tölvan mín í þriðju tilraun ákvað að vera til friðs og ég krossa puttana fyrir því að hún verði það áfram.

Getur virkilega verið að tölvan mín sé orðin þreytt á að fara í skólann og vilji bara fá að hvíla sig á borðinu mínu þegar ég er ekki heim?

Það kaldhæðnislega er að við vorum einmitt að ræða um lögmál Murphys yfir tilrauninni í dag

Tuesday, February 14, 2006

Svona vegna þess að ég er ekki þekkt fyrir annað en að finna eitthvað til að taka mér fyrir hendur en það sem liggur brýnast við þá ætla ég að skella mér á Klakann um helgina að skoða íbúðir. Það verður brjálað að gera enda ætlunin að skoða amk 5 íbúðir á einum og hálfum degi. Já, einn og hálfur dagur, maður má víst ekki missa meira í bili.
Verkefni næstu daga eru þrjár skýrslur í þessari viku og tvær í næstu. Ein er að vísu komin á deadline en lítið er við því að gera nema neita að gefast upp fyrir svefninum fyrr en hún lítur sæmilega út.

Þetta græðir maður á því að slugsa í rúma viku, en það virðist samt seint ætla að síast inn. Það er einhvern veginn eins og þessi staðreynd týnist í upplýsingamergðinni sem búið er að troða inn í hausinn á mér, engan ætti að undra þó hann sé aðeins farinn að leka...

Saturday, February 11, 2006

Ég var óneitanlega farin að sakna dýralífsins í kringum blokkina mína. Það birti því til innra með mér þegar á móti mér tók hoppandi kanína á bílastæðinu þegar ég kom heim í nótt. Hvað er það við þessi litlu dýr, smáfuglana, íkornana og kanínurnar, sem veldur þessari vellíðan?

Wednesday, February 08, 2006

Hvað er málið með drauma?
Stundum eru þeir undarlegri en allt. Ég lagði mig í dag og fór að dreyma fullt af skrítnum hlutum, man frekar lítið en það sem ég man, og hlýtur þá að vera það sem mig var að dreyma þegar ég vaknaði eru fjórir pínulitlir kettir. Og þar voru mínir tveir ekki með, þeim brá reyndar fyrir en voru í eðlilegri stærð.
Þessir litlu kettir komust fyrir allir fjórir í annari hendinni og lágu töluvert á bakinu eins og ungabörn. Að mörgu leyti voru þeir meira eins og ungabörn, þá meina ég í útliti. Það kom samt alveg skýrt fram að þetta voru kettir eða öllu heldur kettlingar, þrír strákar og ein stelpa og einhvern veginn var tilfinningin að hún ætti von á kettlingum (kettlingurinn sjálfur !?). Gott ef þeir fóru ekki líka minnkandi eftir því sem á leið drauminn, jú ég bara held það. Svo voru það lyfin. Þeir áttu að fá einhverjar töflur, sem í upphafi voru eins og mínar töflur en voru svo orðnar eins og smækkuð útgáfa, og pælingin í kringum það var hvað þeir ættu fá stóran skammt. Og þá eins og í öllum skrítnum draumum vaknaði ég. Einhvern veginn fléttaðist inn í þetta minningin um litla kvefaða kettlinginn sem dó í Kattholti meðan ég var það síðasta sumar.
Hvað er eiginlega málið með svona drauma? Þeir nánast grátbiðja um að vera túlkaðir, en á því sviðinu skortir mig eitthvað, hvort sem við köllum það trú, kunnáttu eða reynslu.

Monday, February 06, 2006

Ætli ég sé búin að finna nýja sportið? Ég er allavega alveg að fíla klifrið, búin að fara alveg tvisvar !
Eins og venjan er með mig er ég strax farin að hugsa stórt og velta fyrir mér að fjárfesta í búnaði, en ég held ég verði samt að sýna smá rökhyggju og bíða með stærri fjárfestingar. Engu að síður sé ég fram á bjarta tíma, því svei mér þá, ég held bara að ég geti eitthvað í þessu. Vantar að sjálfsögðu styrkinn og jafnvægið en ég held ég standi mig bara nokkuð vel miðað við byrjanda. Það er ekki laust við að það votti fyrir eftirsjá yfir að ekki prófað þetta fyrr.

Sunday, February 05, 2006

Ísköld höndin læðir sér á milli rifbeinanna og læsir klónum í hjarta mitt... það er alltaf jafn sárt.

Á stundum sem þessum er mikilvægt að ná sambandi við rétta fólkið. Taki þeir til sín sem eiga, takk fyrir stuðninginn, án ykkar væri lífið mun erfiðara.

Saturday, February 04, 2006

- I've always looked at going out on town as fishing. Then I fished and I didn't go out anymore. I just caught a good one -
Þessi orð lét hann bróðir minn út úr sér á miðvikudagskvöldið síðastliðið. Hversu margir ætli séu sammála honum um þessa skoðun? Er næturlífið einungis veiðilenda hinna hungruðu rándýra?