Ég kíkti á Huldu í Karolinska í dag, bæði til að spjalla og kveðja hana í bili. Þar fundum við gamalt Metro sem í var grein sem vakti áhuga okkar. Greinin fjallaði um breytt hugarfar ungs fólks til kynlífs, þ.e. að meira teljist sjálfsagður hlutur í dag en þegar foreldrar okkar voru ungir. Fleiri séu opnir gagnvart hópkynlífi, kynlífi með sama kyni, opnum samböndum og að eiga bólfélaga. Þetta er ekkert til að rengja en var ekki það sem okkur þótti áhugaverðast.
Það sem mestan áhuga vakti hjá okkur voru tölur úr könnun sem gerð var á sjöunda áratugnum í Svíþjóð. Þar kom fram að konur studnuðu að meðaltali kynlíf með 1,4 manneskjum á lífsleiðinni meðan sama karlmenn áttu að meðaltali 4,7.
Okkur fannst þetta ekki alveg geta passað, það þarf tvo til (amk) ef stunda á kynlíf með öðrum en sjálfum sér. Eftir nokkrar vangaveltur komumst við að þeirri niðurstöðu að þrennt gæti komið til greina:
1. Það eru mun fleiri konur en karlar í samfélaginu.
2. Karlar stundi ekki bara kynlíf með konum, heldur körlum líka.
3. Konur draga úr tölu rekkjunauta á meðan karlar ýkja hana.
Hvað af þessu er líklegast ?
Eru til fleiri skýringar ?