Thursday, March 30, 2006

Ég ætla að birta hér ferðaplanið mitt fram á sumar fyrir þá sem hafa áhuga :o)

6. apríl - Reykjavík, Ísland
15. apríl - Stokkhólmur, Svíþjóð
27. apríl - Turku (Åbo), Finnland
1. eða 2. maí - Stokkhólmur, Svíþjóð
31. maí - Dnepropetrovsk, Úkraína (og væntanlegur flækingur niður til Krímskagans)
14. júní - Stokkhólmur, Svíþjóð
ca. 16. júní - Reykjavík, Íslandi
5. júlí - Stokkhólmur, Svíþjóð (Depeche Mode 7. júlí)
12. júlí - Reykjavík, Ísland

Í framhaldinu kemur flækingur um Ísland ásamt þeim Steinari, Antti og Tapani. Síðastnefndir tveir eru Finnar sem verða samferða mér heim frá Svíþjóð og planið er að lenda beint í Bláa Lóninu. Það kemur í ljós hvort við náum að sannfæra flugmennina.
En eins og þið sjáið á listanum þá verður nóg að gera hjá mér fram á sumar. Og þið hélduð að ég væri úti í námi ;o).

Kveð í bili!

Wednesday, March 29, 2006

Helstu fréttir eru þær að ég náði seinna prófinu með stæl og tókst að sannfæra kennarann í polymerfysik að halda upptökupróf í apríl, þann 25. nánar tiltekið. Það þýðir að sjálfsögðu að rússneskan fær að sitja á hakanum og ég mun einbeita mér að polymer og solid state physics, en ég á að taka svokallaða kontrolskrivning í honum í vikunni á undan. Það verður sem sagt nóg að gera eftir páska og ansi hætt við því að maður verði að hægja aðeins á sér í skemmtanalífinu. Þess vegna er um að gera að nota tímann sem best fyrir páska ;o)

Tuesday, March 28, 2006

Það er blautt úti í dag,enda hitinn vel yfir frostmarki og snjórinn farinn að hrynja af húsþökunum. Þessi vetur hefur víst verið heldur í lengra lagi miðað við venjulega. En ég er ekki að kvarta, ekki yfir vetrinum. Sagan segir að eftir harðan vetur komi gott sumar, ég held að ég muni það rétt. Maður mátti hafa sig allan við að forðast pollana í dag svo fæturnir yrðu ekki holdvotir. Það liggur líka þétt þoka yfir borginni og hefur gert síðan í gær. Sunnudagurinn var hins vegar sólbjartur en blautur.

Segiði svo að maður sverji rig ekki í ætt við þjóðina, farinn að skrifa um veðrið. Og á þeim nótum er spáð hækkandi hita fram yfir helgi. Vorið er komið til Stokkhólms, að minnsta kosti eru smáfuglarnir mættir á svæðið með sitt söngl.

Monday, March 27, 2006

Var það ekki týpískt, átti að mæta í tvo fyrirlestra á sama tíma í morgun og jújú, mér tókst að sofa yfir mig..

Ég held ég þurfi að láta klóna mig, það hlýtur að vera hægt að samtengja heilana einhvern veginn eða safna upplifunum og minningum á miðlægan harðan disk og uppfæra heilana í svefni. Hljómar það ekki vel? Klóninn gæti þá sofið meðan ég vaki og vice versa.

Sunday, March 26, 2006

Ég held það sé orðið alveg útséð um að ég muni fara oftar á skauta í vetur, að minnsta kosti utanhúss, enda er farið að hlýna í veðri og við komin á sumartíma frá og með deginum í dag.
Tíðni skautaferða í Stokkhólminum reynist vera ein á ári. Mikil ósköp hvað ég stend mig vel í þessu. Ef það væri ekki fyrir bandýið þá héldi ég áreiðanlega áfram að rýrna. Talandi um bandý, ég var hann svo sannarlega í dag. Afrek eða eftirköst dagsins verða 4 myndarlegir marblettir. Einn á upphandleggnum eftir samstuð við olnbogann á Steinari og þrír á sköflungunum eftir kylfusveiflur frá Kristveigu. Ég var farin að halda að það stæði "Hit me!" á leggjunum á mér. Vona bara að ég þurfi ekki að vera hann aftur næst..

Ég held ég sé búin með skrifkvótann í bili, allavega hef ég ekki meira að segja.

Friday, March 24, 2006

Ég finn hjá mér undarlega þörf í dag. Þetta er mjög dularfull tilfinning sem sjaldan verður vart við. Mér finnst einhvern veginn eins og ég verði að TAKA TIL !!?

Á maður að láta undan eða gera eitthvað annað þangað til þörfin líður hjá?

Thursday, March 23, 2006

Það koma þessir dagar þegar það eru komnir brestir í persónuleikann og maður verður að kúppla sig út úr hversdagsleikanum itl að pússla sjálfum sér saman. Ég átti einn svoleiðis í gær. Vaknaði í svitabaði við það að mér var bæði heitt og kalt. Komst að þeirri niðurstöðu að ég hlyti að vera lasin og lagðist á koddann aftur. Skreiddist framúr um fimmleytið og dagurinn búinn..
Jæja, ég fékk þó allavega hvíld. Verð til í slaginn og hressari á morgun!

Tuesday, March 21, 2006

Mér hefur greinilega tekist að hrista eitthvað upp í Svíunum þegar ég mætti með tölvuna mína á nýjan leik í viðgerð. Ég fékk hana aftur í hendurnar í morgun og enn sem stendur hagar hún sér þokkalega.
Annars er það helst að frétta að fuglaflensan náði til Stokkhólms um helgina og meðal annars féll dauður svanur niður á götuna í miðbænum. Maður má samt ekki vera að því að "óróa sig fyrir þessu" langaði mig að segja... það er ekki hægt að segja annað en að sænskan sé eitthvað að síast inn. Enda ekki seinna vænna, það er orðið svo stutt í heimferðina.
Ég hef nú svo sem ekkert að segja svo ég held ég vísi bara á linkana hér til hliðar, það hlýtur að leynast þar einhver sem hefur meira að segja en ég í dag.

Friday, March 17, 2006

Ég held ég verði að hætta að tjá mig um þetta tölvumál. Jújú, nýja móðurborðið gaf sig, hvað annað.. En þar sem ég á svo yndislega vinkonu að nafni Hulda þá næ ég samt að vinna um helgina. Hún ætlar að fórna sér fyrir mig og lána mér sína.

Það verður seint ofmetið að eiga góða að.

Thursday, March 16, 2006

Ég held ég hafi náð botninum með falli í polymerfysik, en nú er ég komin með vopnin í hendurnar, tölvan í lagi, nýtt móðurborð og harður diskur. Að vísu skemmdist nýja minnið mitt líka en ég tek það upp heima um páskana. Ég verð að viðurkenna að það hefur létt alveg heil ósköp yfir mér. Það eitt að fá tölvuna í hendurnar, það er ótrúlegt hvað maður er háður tækninni.

Ég er ekki einu sinni hálfnuð í uppsetningunni svo það er best að halda áfram. Vildi bara leyfa ykkur að fylgjast með ;)

Saturday, March 11, 2006

Jújú, þeir eru búnir að gera við tölvuna mína!

En nei, ég er ekki búin að fá hana ennþá...

Ég ákvað að þar sem ég væri nú að læra undir próf þá væri sniðugt að fá þá til að senda hana til mín. Það tók IBM einn dag að senda mér nýjan HDD frá Bretlandi þannig að ég gerði fastlega ráð fyrir því að ég fengi hana í hendurnar snemma á fimmtudag. En, boy, was I wrong..

Aldrei að gera ráð fyrir að Svíar geti verið fljótari að hlutunum en ef maður gerir þá sjálfur. Það er lexía vikunnar. Þrátt fyrir að þeir reki sína eigin heimsendingarþjónustu (eða kannski þess vegna) og ég sé búin að hringja þrisvar í þá er ég ekki enn búin að fá afþreyingartólið mitt í hendurnar, hvað þá að þeir svari í símann. Það hefði tekið mig 3 til 4 tíma og rúmlega hálftíma ark í kuldanum að ná í hana sjálf á fimmtudaginn, en að öllu meðtöldu held ég að það hefði verið þess virði.

Heyrðu þetta er farið að hljóma eins og ég sé eittvað beysk (?).

Góðar fréttir verða víst að fylgja með líka! Ég ætla að flytja í 107 um miðjan júní. Megið búast við einhvers konar innfluttningsgleði. Tímasetning verður ákveðin seinna.
Eins gott að þessi ákvörðun reynist betur en sú að láta senda mér tölvuna heim, annað gæti orðið dýrt spaug.

Þá er að snúa sér að skýrslunni sem ég átti að skila í gær

Wednesday, March 08, 2006

Gleði gleði, hér er ég, ennþá tölvulaus, og just my luck, það er náttúrulega lokað í hádeginu þegar mér dettur í hug að hringja.

Að öðru, þá er eitt próf búið (vonandi fyrir fullt og allt) og eitt próf eftir í þessari törn. Rafefnafræðin bíður og enn einu polymerprófinu aflokið. Ég veit ekki hversu oft ég á að þurfa að endurtaka polymerar eru bara ekki mitt thing.. en stundum neyðist maður til að gera/læra leiðinlega hluti líka. Ekki það að þeir séu ekki áhugaverðir, en ég nenni bara ekki að liggja yfir þeim og lesa. Það virðist reyndar vera fátt sem ég nenni að liggja yfir og lesa þessa dagana, að minnsta kosti að því sem viðkemur skólanum. Jæja, ég fékk þó allavega smá spark, svo það er vonandi að ég sleppi og standi mig betur á þriðjudaginn..

Bara 5 mín í að þeir opni eftir hádegishlé, ætli þeir séu búnir að laga fyrir mig tölvuna mína?

Thursday, March 02, 2006

- Allt er kál í kuldanum - gæti verið það sem kanínan, sem ég mætti á mánudagskvöldið á leiðinni heim úr skólanum, var að hugsa, en þar sat hún í makindum sínum við grein sem svignað hafði niður og nagaði börkinn. Líklega hefur henni líkað það vel þar sem hún sat þar aftur daginn eftir, ja, nema það hafi verið önnur alveg eins. En það er svo sem ekki um mikið annað að velja þessa dagana, enda snjór yfir öllu og hitinn að miklu leyti undir frostmarki.
Ég afrekaði að tapa lyklunum mínum síðustu helgi og kemur það ekki mjög á óvart miðað við skakkaföllin sem hafa orðið undanfarnar tvær vikur. Góðu fréttirnar eru þær að ég fékk nýjan sílinder í hurðina mína og nýja lykla, sem þýðir að læsingin stendur ekki lengur á sér. Ég hafði mig líka loksins í að láta vita af því sem var ekki eins og það átti að vera, svona úr því húsvörðurinn var hvort eð er kominn á hnén við hurðina mína. Þetta lyklaævintýri var nú ekki alveg ókeypis en ég skrimti enn og er ekki fallin undir hungurmörk. Hlakka til að koma heim og sjá vatnið renna óhindað um niðurfallið og geta fest gluggann svo hann fjúki ekki upp.

Tölvuna mína fæ ég aftur á morgun, jibbí, og það akkurat tímanlega til að stela tímanum sem +a að fara í próflestur.
Ég á von á heldur strembnu prófatímabili, enda eru tvö verkefni eftir (þökk sé tölvunni minni fyrir að beila) og fyrsta prófið á miðvikudag. Seinna prófið verður svo á þriðjudag eftir viku. Þar verður enginn lúxus í þetta skiptið, ekkert upplestrarfrí og skóli strax daginn eftir seinna prófið.

Með öðrum orðum, tími til að bretta upp ermarnar og dýfa höndunum í mykjuna!